• Skip to main content
  • Skip to primary sidebar

Villi Asgeirsson

Drafting ideas...

  • Novels
  • Blog
  • Translations
  • Newsletter

smásaga

Jónsmessa – smásaga

21 June 2021 by villia Leave a Comment

Jón gerði að útihúsunum, sá til þess að allt væri klárt fyrir nóttina, áður en hann fór til hvílu. Jónsmessunótt var að ganga í garð. Sólin myndi ekki setjast, en morgundagurinn yrði eins og hver annar. Verkin spurðu ekki að því hvaða dagur var, þau yrðu að vinnast og hann varð að vera úthvíldur. Enda var það öllum ljóst að það var slæm hugmynd að vaka á Jónsmessu. Ef kýrnar talandi gerðu mann ekki vitstola, yrðu álfkonurnar á vegi manns, með tilheyrandi freistingum. Nei. Jón færi til hvílu í kvöld, eins og öll önnur kvöld.

Sólin skein á kotið þar sem hann lokaði hurðinni og lagðist til hvílu. Úti glitraði lygnur sjórinn þar sem hann strauk svartan sandinn. Það eina sem raskaði spegilsléttu yfirborðinu var selur sem stakk hausnum upp fyrir yfirborðið og horfði til lands. Sandurinn vék fyrir grænu grasinu sem þakti undirlendið, og jökullinn, baðaður í kvöldsólinni, sameinaðist rauðglóandi himninum.

Fætur hennar snertu blautan sandinn og aldan lék sér við tærnar. Hún teygði úr sér, hendurnar yfir höfuðið, eins og hún væri að reyna að snerta himininn. Leyfði hlýrri kvöldsólinni að gæla við líkamann. Hún brosti, dró andann eins djúpt og hún gat og gekk upp sandinn. Grasið kitlaði fæturna, en það var allt í lagi. Það var ekki oft sem hún gat gengið hér. Einu sinni á ári.

Kotið birtist henni þegar hún kom upp á hólinn. Tvær kýr voru á beit, litu á hana, buðu gott kvöld. Spurðu hvað hún væri að gera hér. Bara í heimsókn, svaraði hún brosandi, og lét sér það engu skipta að kýrnar töluðu við hana. Annað eins hafði gerst.

Hljóðlega opnaði hún dyrnar og læddist inn. Það var dimmt og svalt inni í bænum. Hann lá sofandi, og hún smeygði sér upp í rekkjuna, naut hlýjunnar. Hann rumskaði, hreyfði sig lítillega þegar hún snerti andlit hans með kaldri hendinni. Hún snerti bringuna og strauk. Hann vaknaði og snéri sér að henni. Leit í djúp augun. Hann snerti ljósa og silkimjúka hárið.

‘Í dag er Jónsmessunótt,’ sagði hann. ‘Ertu álfkona?’

‘Nei, auðvitað ekki. Álfkonurnar eru allar uppteknar á vegamótum.’

‘Hver ertu,’ spurði hann.

Hún snerti varir hans létt með fingrinum og kyssti hann á ennið. Strauk á honum andlitið, lét fingurna renna niður hálsinn og niður á bringu. Bóndahjartað sló hratt. Óttinn og spennan börðust innra með honum. Hver var þessi gullfallega kona? Hvað vildi hún í hans rekkju? Hvaðan hafði hún komið? Hann reyndi að stilla sig, reyndi að standast freistinguna, en hann var einmana. Hún var fallegasta vera sem hann hafði nokkurn tíma séð. Hvort hún var mennsk eða ekki, gat hann ekki dæmt um, en það skipti hann litlu máli. Ef hún var mennsk, gat hann ekki látið þetta tækifæri frá sér fara. Hún gæti verið mennsk, og hún yrði þá vonandi konan hans.

Hún dró af honum klæðin og þau elskuðust. Miðnætursólin varpaði daufri birtu inn um norðurskjáinn og lýsti upp konuna, svo að hún líktist helst engli af holdi og blóði.

Það næsta sem hann mundi var fuglasöngurinn sem boðaði nýjan dag. Ef hægt var að tala um nýjan dag í landi þar sem sólin ekki settist um mitt sumar. Jón horfði í kringum sig, undrandi og hálf hræddur við það sem hafði gerst. Hvar var elskhugi hans? Hvar var fallegasta vera sem hann á allri ævinni hafði séð? Hann vildi ekki trúa að þetta hefði einungis verið draumur. Hann reis snöggt úr rekkju og horfði í kringum sig. Hvert hafði hún farið?

Jón hljóp út úr kotinu, mundi að þetta var nóttin þar sem bændur veltu sér upp úr morgundögginni svo að draumar þeirra mættu rætast, og henti sér í blautt grasið. Eftir að hafa velt sér um í einhvern tíma, stóð hann upp og leit í kringum sig. Hvar var hún? Hann leit á kýrnar en þær töluðu ekki. Hvar er hún, spurði hann aftur. Kýrnar litu á hann, bitu í grasið og slengdu hausunum í átt að ströndinni. Hann tók til fótanna, hljóp eins hratt og þeir báru hann. Blautt grasið vék fyrir votum sandinum. Jón kastaði mæðinni og horfði niður eftir ströndinni.

Sólin var komin töluvert hátt á loft og geislar hennar glitruðu á sjávarfletinum. Jökullinn glóði eins og haugur úr gulli.

En hún var ekki hér.

Ástin hans var farin.

Þar sem hann sat í sandinum sá hann ekkert nema nokkra fugla á flugi og sel sem stakk hausnum upp úr sjónum og horfði á hann. Þau horfðust í augu eitt andartak, áður en selurinn hvarf undir yfirborðið.

Þessi saga var upphaflega gefin út 20. júní 2021 á ensku sem Summer Solstice, og er hluti af smásagnaflokknum Moments (Augnablik)

Filed Under: Icelandic, Short Stories, Writing Tagged With: icelandic, íslenska, moments, short stories, short story, smásaga, smásögur

Primary Sidebar

Recent Posts

  • A New Novel – coming soon
  • Free. Worthless or priceless?
  • Translations? How? Why?
  • Paperback Writer – how to get them?
  • Happy New 2023!

Recent Comments

  • Iain CM Gray on Happy New 2023!
  • Verrader – een kort verhaal on A Traitor Lay Dying – a short story
  • villia on Is it possible?
  • Chris on Is it possible?
  • Reviews and indy authors | Villi Asgeirsson on Blood and Rain – novel published

Archives

  • May 2025
  • April 2025
  • April 2024
  • January 2023
  • December 2022
  • November 2022
  • June 2021
  • May 2021
  • April 2021
  • March 2021
  • February 2021
  • January 2021
  • January 2020
  • October 2019
  • January 2019
  • November 2018
  • September 2018
  • August 2017
  • March 2017
  • February 2017
  • September 2016
  • March 2016
  • January 2016
  • November 2015
  • October 2015
  • November 2014
  • September 2013
  • June 2013
  • May 2013
  • March 2013
  • February 2013
  • October 2012
  • September 2012
  • August 2012
  • July 2012

Categories

  • Blog
  • Film
  • Icelandic
  • Music
  • Novel
  • Personal
  • Politics
  • Promotions
  • Reviews
  • Short Stories
  • Social Media
  • Thoughts
  • Uncategorized
  • Website
  • Writing

Meta

  • Log in
  • Entries feed
  • Comments feed
  • WordPress.org

Novels

  • Newsletter
  • Novels
    • Blood and Rain
    • Under the Black Sand
  • Translations

Copyright © 2025 · Author Pro on Genesis Framework · WordPress · Log in

 

Loading Comments...