Þessi dagur markar endalok langrar ferðar. Snemma á árinu 2006 – fyrir rúmum 13 árum – langaði mig að gera stuttmynd. Ég var nýbúinn að klára kvikmyndaskólann og framtíðin var björt. Hugmyndirnar komu og fóru, engin þeirra virtist vera sérstaklega spennandi. Mig langaði að gera íslenska mynd, ég saknaði landsins míns. Afi var veikur og ég vildi búa til ástæðu til að fara heim og vera þar í einhvern tíma. En það komu engar hugmyndir sem mér fannst þess virði að kvikmynda.
Kvöld eitt lagðist ég upp í rúm, lokaði augunum. Ég sá hana fyrir mér. Stúlkuna á heiðinni. Mörgum árum áður hafði ég verið að keyra yfir Hellisheiði um nótt. Var að fara að heimsækja afa og ömmu fyrir austan Selfoss. Þar sem ég kom upp brekkuna fyrir ofan Skíðaskálann, stóð stúlka við veginn. Ég man svo vel eftir henni. Hún var sennilega um 170cm á hæð, grönn og klædd eins og hún ynni á sjúkrahúsi. Ég sá hana of seint og keyrði framhjá. Skildi ekki hvað ung kona var að gera ein á heiðinni um miðja nótt, svo ég stoppaði, vildi gefa henni far ef hún þyrfti að komast heim, en það var enginn þarna. Morguninn eftir sagði ég afa frá þessu, hann fyllti inn í eyðurnar og ég var hissa að hann vissi hvar þetta nákvæmlega gerðist og hvernig hún var. Hann sagði mér að fleiri hefðu séð hana, að hún hefði búið á Selfossi of farist í bílslysi á þessum stað. Hún var í námi, vildi verða hjúkrunarkona og var á leiðinni í bæinn eftir jólafrí.
Mörgum árum seinna lá ég í rúminu og reyndi að sofna. Ég sá hana aftur þar sem ég lá með augun lokuð. Sá atburðarásina sem varð neistinn að stuttmyndinni sem mig langaði að gera. Konan við veginn, maðurinn keyrir of hratt, keyrir á hana. Hann liggur fram á stýrið og þorir ekki að athuga hvað hefur gerst, þegar hún ávarpar hann. Hún situr við hliðina á honum. Þau keyra af stað en það er eitthvað skrítið við þetta. Hún verður dekkri og óljósari, orð hennar óræðari. Svo fer henni að blæða, hann reynir að finna tissjú í hanskahólfinu, er ekki að fylgjast með veginum, hún biður hann um að hægja á sér en hann vill bara hjálpa henni. Þegar hann lítur upp, er það of seint. Hann sér konuna á veginum fyrir framan sig, reynir að beygja frá en bíllinn rennur til. Keyrir á hana. Hann liggur fram á stýrið og þorir ekki að athuga hvað hefur gerst. Þegar hann loks lítur upp, er hann einn. Hann staulast út úr bílnum og finnur hana við vegkantinn.
Þessi saga spilaði sig fyrir augum mínum í rúminu. Um leið og henni var lokið, sofnaði ég.
Morguninn eftir opnaði ég tölvuna og skrifaði þetta áður en ég gleymdi því. Pétur og Emilía voru komin í heiminn. Næstu vikur fóru í að finna út hvað sagan væri um og sumarið var ég tilbúinn að fara til Íslands og kvikmynda. Atburðarásin í bílnum var límið sem hélt myndinni saman, en önnur atriði gerðust hér og það í Íslandssögunni. Ég fann leikara og fullt af fólki sem langaði að hjálpa til. Amma þekkti til hjá Leikfélagi Selfoss og ég fékk lánaða búninga þar. Við tókum upp í Reykjavík, Breiðafirði, á Skógum, í Reynisfjöru og víðar.
Það kom fljótlega í ljós að sagan var of stór fyrir stuttmynd. Við byrjuðum að klippa hana strax eftir að ég kom aftur út til Hollands og fyrsta útgáfan var 45 mínútur. Það varð að klippa hann niður. Endanlega útgáfan var 23 mínútur, minnir mig, sem er eiginlega tvöfalt lengra en ég hefði talið æskilegt.
Í október 2008 var myndin sýnd á RIFF kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Fyrir þann tíma hafði fullt af fólki pantað diskinn. Það eru fullt af DVD diskum í hillum á Íslandi merktir Svartur Sandur. Það er þó ekki RIFF útgáfan. DVD útgáfan er ekki eitthvað sem ég myndi láta frá mér í dag. Ég lærði að maður á að klára hlutina áður en þeim er leyft að fara út í heiminn.
Fljótlega eftir að tökum var lokið fór ég að vinna í handriti að kvikmynd í fullri lengd. Það var komið í þokkalegt form haustið 2008. Ég sendi það á kvikmyndaframleiðendur á Íslandi og það voru einhverjir sem sáu eitthvað í því. Það var áhugi. Ég var vongóður og hélt áfram að skrifa og laga það til. Fljótlega eftir Hrunið varð þó augljóst að það voru engir peningar til og kvikmyndin yrði ekki gerð. Ég gafst þó ekki upp og hélt áfram að senda nýjustu útgáfurnar til leikstjóra og framleiðenda.
Einhvern tíma á árinu 2010 fékk ég skilaboð frá leikstjóra. Hann hafði lesið handritið og vildi hitta mig. Vildi segja mér að hann hefði ekki burði til að gera kvikmyndina en vildi koma því til skila að þetta væri mjög sérstök saga og að samtölin í handritinu væru þau bestu sem hann hefði séð í íslensku handriti. Þau væru eðlileg, ótilgerðarleg, lifandi. Hann afsakaði að geta ekki gert myndina en sagði mér að ég yrði að skrifa bók upp úr handritinu. Ég hló, fannst það allt of mikið stórvirki. Ég held varla nægri athygli til að klára kaffibolla. Hann hamraði og þegar ég gekk út af Hressó, hafði hann plantað þessu fræi.
Ég byrjaði strax að skrifa. Kláraði fyrsta kaflann en komst ekki lengra. Ákvað að reyna að skrifa á ensku og þá kom sagan hratt. Ári seinna var bókin tilbúin. Það angraði mig að ég hafði skrifað íslenska sögu á ensku, svo ég umturnaði öllu og lét söguna gerast í Skotlandi. Það eru enn leifar þess í bókinni sem kemur út í dag. Þar sem Pétur stendur efst í Hallgrímskirkjuturninum, pirrast hann á því að það séu engir djöflar og púkar á íslenskum kirkjum. Ég hafði nefnilega skrifað fyndið atriði þar sem hann er að fara að fremja sjálfsmorð en stendur í hrókasamræðum við púkana. Það var ekki hægt í íslenskum veruleika, svo hann hugsar um púkana sem eru ekki þarna.
Sumarið 2012 lét ég prenta sjö bækur og lét fólk hafa til að lesa og láta mig vita hvað mætti betur fara. Sex komu með athugasemdir um stafsetningu og minniháttar gloppur, en einn lesandinn var ekki sáttur. Þetta er íslensk saga, sagði hann. Af hverju er hún að gerast í Bretlandi? Þú þarft að endurskrifa þetta.
Mér féllust hendur. Sex ár voru liðin og ég þurfti að byrja upp á nýtt.
Ég settist niður og skrifaði. Það var seint í maí 2013 að ég var loksins búinn. Under the Black Sand var til, hún gerðist á Íslandi, var að vísu á ensku, en hún var tilbúin. Ég hafði hent út 10-20 atriðum úr fortíðinni, hreinsað hana, gert fyrsta kaflann aðgengilegri.
Bókin var upphaflega gefin út á Amazon. Það var bara hægt að fá hana sem rafbók. Ég hafði eytt svo miklum tíma í þetta að ég lét hana vera. Það voru engar skrúðgöngur, engin læti, engar tilraunir til að fá fólk til að taka eftir henni. Bókin var til og það var nóg.
Ég skrifaði aðra bók, Blood and Rain, vann í að skrifa Hunger City en hætti við að klára hana, fór að vinna í Mont Noir sem kemur sennilega út á næsta ári, bjó til miðaldaheim sem mig langaði að skoða og skrifa bókaröð um. Ég hugsaði líka um framhald, hvert gæti ég tekið Svarta Sandinn? Var það góð hugmynd að skrifa framhald? Mér fannst endirinn það sterkur að framhald yrði að vera það besta sem ég gæti nokkurn tíma skrifað.
Þar sem ég vann í öðrum verkefnum (og vann vinnu og aldi upp barn og meira), fór ég að hugsa um það hvernig Sandurinn kæmi út í íslenskri þýðingu. Það var fólk sem vildi vinna það verk en það dróst. Ég fór að skoða söguna. Hvernig væri tíma mínum best varið, í að þýða eitthvað sem þegar var til eða skrifa eitthvað nýtt.
Þar sem ég las bókina aftur, fannst mér hún eiga erindi við fólkið mitt á Íslandi. Ég yrði að gera þetta sjálfur. Þetta var mín saga, mín rödd, mín sýn á Ísland nútímans og sögu þjóðarinnar.
Það hefur tekið um tvö ár að þýða bókina. Það er með hléum. Íslenska útgáfan er eitthvað lengri en sú enska, það var svo gaman að leika sér með íslenska staðhætti og hugmyndir. Margir staðir sem voru óræðir í ensku útgáfunni því útlendingar þekkja þá ekki eru nefndir og þeim lýst á íslensku. Íslendingar vita strax hvað ég á við þegar ég segi Hólavallagarður, Fjölnisvegur, Langisjór, Meðalland, Móðuharðindi, Tjörnin.
Undir Svörtum Sandi var alltaf íslensk saga og það er ólýsanleg tilfinning að hafa loksins tekist að gera hana aðgengilega íslendingum. Það eina sem ég sé eftir er að afi og amma muni aldrei fá tækifæri til að lesa hana. Þeim entist ekki aldur til. Ég hefði kannski átt að vinna þetta hraðar, en ég er ekki sá sem ég var fyrir fimm eða tíu árum. Það er sennilega ástæða fyrir því að þessi bók er tilbúin núna en ekki þá.
Kæri lesandi. Þessi pistill er orðinn of langur, en ég vona að hann hafi gefið þér hugmynd um hvað Svarti Sandurinn er, hvaðan hann kom og af hverju þetta verður alltaf sú bók sem mér þykir vænst um. Ég vona innilega að þú fáir tækifæri til að lesa hana og að þú látir vita hvernig þú upplifðir hana.
Dagurinn í dag markar endalok ferðar sem hófst með lokuðum augum fyrir 13 árum, eða á heiðinni fyrir 31 ári. Sért þú að lesa þetta á útgáfudegi, langar mig að gefa þér eintak. Farðu á Smashwords og fylltu inn kóðann YZ68H og bókin er þín, endurgjaldslaust. Kóðinn gildir í dag, 17. október 2019.
Ég verð á landinu í næstu viku og tek nokkrar harðspjaldabækur með. Langi þig í prentaða bók, láttu mig vita.
Takk fyrir að lesa. Bókin mun nú öðlast eigið líf án minna afskipta. Hún er til, komin út í heiminn og mun nú lifa sjálfstæðu lífi.
Hér fyrir neðan eru tvö sýnishorn. Annað er myndband sem ég gerði við tónlist sem Guy Fletcher (Dire Straits) gerði fyrir myndina, hitt er stikla sem ég gerði fyrir ensku bókina. Þar syngur Samkór Selfoss (með afa) lagið Sofðu Unga Ástin Mín.
Leave a Reply